Hvað er PACBI

English
Svenska
Norsk

PACBI er skammstöfun og stendur fyrir The Palestinian Campaign for the Academic and Cultural Boycott of Israel (Palestínska herferðin fyrir akademískri og menningarlegri sniðgöngu á Ísrael). . Herferðin snýst um að berjast fyrir sniðgöngu akademískra og menningarlegra stofnana í Ísrael vegna djúprar og viðvarandi samsektar þeirra í að neita Palestínumönnum um réttindi sem þeir eiga að njóta samkvæmt alþjóðalögum. 

Stofnað var til PACBI árið 2004 og var menningarlega sniðganga Suður Afríku höfð að fyrirmynd. PACBI vill gera ljós tengslin milli þeirra sem starfa í menningargeiranum annars vegar og gjörða ríkisstjórna sem styrkja og styðja þjóðernishreinsanir Ísraelska ríkisins á Palestínumönnum hins vegar. 

Menningarstofnanir og samfélögin sem í kringum þær starfa gegna lykilhlutverki í hugmyndafræðilegum og stofnanalegum strúktur hernáms Ísraelsmanna, nýlendustefnu landnámsins, og þeirri aðskilnaðarstefnu sem rekin er gegn palestínsku þjóðinni. Ísraelskar menningarstofnanir (að meðtöldum sviðslistahópum, hljómsveitum, kvikmyndafélögum, rithöfundasamböndum og listahátíðum) hafa ítrekað tekið afstöðu með ráðandi stofnunum zíonista í Ísrael. Burt séð frá viðleitni einstakra prinsippfastra listamanna, rithöfunda og kvikmyndagerðarmanna, hafa þessar stofnanir greinilega stutt, réttlætt og hvítþvegið hernám Ísraelsmanna og kerfislæga afneitun á réttindum Palestínumanna. 

PACBI beinist gegn stofnunum og ekki einstaklingum sem slíkum. Samtökin eru staðföst í stuðningi sínum við tjáningarfrelsið einsog því er lýst í Alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (ICCPR) og hafna, af prinsippástæðum, sniðgöngu einstaklinga vegna skoðana þeirra eða sjálfsmyndar (svo sem ríkisborgararéttar, kynþáttar, kyns eða trúarbragða). Fyrir frekari upplýsingar um viðmiðunarreglur PACBI, stefnumál, eða lista yfir skuldbindingar listamanna sem styðja menningarlega sniðgöngu Ísraelsríkis, smellið hér. 

Ef þú ert listamaður, starfsmaður í listageiranum, stjórnarmeðlimur, rithöfundur, annars konar efnishöfundur í menningarútgáfu eða þátttakandi í listviðburðum sem hefur áhuga á PACBI, á því að starfa með PACBI við tiltekna stofnun eða vilt fá upplýsingar um kennslufundi um PACBI getur þú skrifað okkur á PACBI [hjá] wawog [punktur] com. 

ALGENGAR SPURNINGAR UM PACBI (FAQ)

Hvað sniðgeng ég ef ég fylgi PACBI?

Ísraelskar menningarstofnanir. 

Allar ísraelskar menningarstofnanir sem styrktar eru af ríkinu, þar með taldar ríkisstofnanir, sjálfstæð félög, þrýstihópa og hefðbundin lista- bókmennta- tónlistar- og menningarfélög – að meðtöldum hljómsveitum, dansflokkum, leikhúsum, kvikmyndaframleiðslufyrirtækjum, kvikmyndahátíðum, listasöfnum og svo framvegis – auk styrktarsjóða og akademískra stofnana sem heyra undir sniðgöngu PACBI.

Menningarafurðir sem pantaðar eru af ísraelskum aðila eða ó-ísraelskum aðila sem styður Ísrael

Allar ó-ísraelskar (þ.e.a.s. alþjóðlegar) menningarafurðir sem eru fjármagnaðar af opinberum aðilum eða stofnunum í Ísrael (t.d. Out in Israel hátíðin í San Francisco) heyra undir sniðgöngu. Þetta á einnig við um áróðursherferðir/almannatengslafyrirtæki á borð við Brand Israel og önnur verkefni sem ætlað er að bæta ímynd Ísraels með því að stilla ríkinu upp sem víðsýnu, frjálslyndu, vestrænu, lýðræðislegu samfélagi, ekki síst í þeim tilgangi að útmála nágrannalönd þess sem sérstaklega hómófóbísk og kúgandi. 

Viðburði og starfsemi sem er fjármögnuð af opinberum aðilum í Ísrael eða samsekri stofnun

Öll menningarleg starfsemi eða viðburðir sem eru framkvæmdir í skjóli fjármögnunar eða samstarfs við opinberan aðila í Ísrael, ísraelskan þrýstihóp eða ó-ísraelska stofnun sem styður við vörumerki/áróður Ísraels heyrir undir sniðgöngu PACBI. 

Verkefni sem stuðla að normalíseringu

Öll starfsemi sem er ætlað að styðja þá hugmynd að Ísrael sé bara hvert annað ríki, þar sem ofbeldi þess gegn Palestínumönnum er réttlætt eða þar sem Palestínumönnum, sem eru kúgaðir, er stillt upp sem jafningjum Ísraelsmanna, sem stunda kúgunina, og allir aðilar eru útmálaðir sem jafn ábyrgir fyrir „átökunum“, heyrir undir sniðgöngu PACBI. 

Hvers vegna tekur PACBI menningarstofnanir sérstaklega fyrir?

PACBI er innblásið af sniðgönguátökum þeim sem bundu enda á aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og lítur á hlutverk menningarinnar í því að styðja við eða brjóta niður kerfi kúgunar í heiminum. Við höfum öll hlutverki að gegna þegar kemur að berjast fyrir frelsi og réttlæti í allri mynd. 

Væri ekki betra að einblína á lagasetningu eða beinar aðgerðir?

Sá sem styður PACBI er í raun að styðja beinar aðgerðir gegn hugmyndafræðilegum og stofnanalegum grunni hernámsstjórnarinnar í Ísrael, nýlendustefnunar og aðskilnaðarstefnunni gegn Palestínumönnum. Sem einstakir listamenn, rithöfundar, menningarstarfsmenn og menntamenn stefnum við að því í mörgum litlum skrefum að því að auka alþjóðlegan þrýsting á Ísrael. Viðmið BDS hreyfingarinnar ættu að skiljast sem „gólfið en ekki þakið“ í viðleitni okkar til þess að styðja sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og lausn undan ofbeldi. 

Ég hef áhyggjur af því að PACBI starfi gegn málfrelsi lista- og menntamanna

PACBI tekur ekki fyrir einstaklinga nema þeir starfi fyrir Ísraelsríki eða samseka ísraelska stofnun eða hjálpi Ísrael að endurmarkaðssetja sig. Einstaklingar eiga aldrei að verða fyrir menningarlegri sniðgöngu á grundvelli sjálfsmyndar sinnar (ríkisborgararéttar, kynþáttar, kyns eða trúarbragða) eða skoðana. 

Er hætta á því að PACBI geri Ísraelsmenn fráhverfa málstaðnum, sem annars hefðu verið líklegir til að styðja hann?

PACBI hafnar ekki ísraelskum menningarstarfsmönnum og menntamönnum heilt yfir: BDS-hreyfingin býður „samviskusömum Ísraelsmönnum að styðja þetta átak, fyrir sakir réttlætis og raunverulegs friðar“. Því sterkari sem alþjóðahreyfingin verður því ákafar hafna Ísraelsmenn sjálfir ofbeldinu sem ríkið stundar og því líklegri eru þeir sjálfir til að styðja sniðgöngu. 

Tímaritið mitt birtir skrif palestínskra rithöfunda. Er ekki nóg að styðja málstað þeirra með sýnileika?

Það er mikilvægt að hleypa röddum Palestínumanna að en það er ekki nóg. PACBI er sameiginlegt og efnislegt átak sem og forsenda merkingarbærrar samstöðu, auk þess að vera ákall frá palestínska samfélaginu, að meðtöldum algerum meirihluta palestínskra listamanna og menningarstofnana, um að binda enda á samsekt í kerfislægri kúgun Ísraelsríkis. 

Ég rek gallerí. Þýðir stuðningur við PACBI að ég geti ekki sýnt verk ísraelskra listamanna?

Nei. Sniðgangan beinist að stofnunum, ekki einstaklingum, nema þeir séu fulltrúar ríkisins, menningarlegir sendiherrar Ísraels eða samsekrar stofnunar. 

Hvað geta ísraelskar stofnanir gert til þess að mæta kröfunni um sniðgöngu?

Viðmið PACBI um sniðgöngu undanskilja ísraelskar menningarstofnanir sem hafa uppfyllt tvö skilyrði:

  1. Viðurkennt opinberlega óafsalanlegan réttindi palestínsku þjóðarinnar einsog þau birtast í alþjóðalögum (að meðtöldum þeim þremur grundvallarréttindum sem birtast í ákalli BDS frá 2005). 

2)  Farið eftir alþjóðalögum í stefnu og framkvæmd til þess að binda enda á brot gegn réttindum Palestínumanna. 

Stofnunin mín þiggur ekki fjármagn frá Ísrael né starfar hún með ísraelskum aðilum. Er þátttaka okkar í PACBI bara innantóm táknræn aðgerð?

Menningarleg sniðganga er efnisleg krafa sem kemur frá Palestínumönnum sjálfum. Stærðin skiptir engu, hver einasti hópur eða hvert einasta verkefni sem styður PACBI tekur opinbera afstöðu gegn útbreiðslu áróðurs Ísraelsmanna. 

Þarf stofnunin mín að slíta samstarfi við stofnanir sem fara ekki eftir markmiðum PACBI?

Nei. PACBI nær ekki yfir annars stigs sniðgöngu. Þótt að stofnunin þín slíti ekki samstarfi við stofnun sem er studd af aðila sem heyrir undir sniðgönguna (t.d. Puma eða Siemens bankann) þýðir það ekki brot á viðmiðum PACBI. BNC og PACBI hvetja stofnanir til þess að gerast talsmenn BDS. Þetta þýðir að ef stofnunin er í samstarfi við slíkan aðila getur hún notað tækifærið til þess að hefja samræðu, hvetja aðilann til þess að slíta samningum sem gætu leitt til sniðgöngu með það fyrir augum að vinna saman gegn vélráðum þeirra stjórnvalda sem styðja aðskilnaðarstefnu. 

Ég vil styðja PACBI. Hvernig geng ég úr skugga um að fjármögnunin hjá mér sé í lagi?

Öll verkefni sem framkvæmd eru undir verndarvæng ísraelskra menntastofnana eða þiggja hjá þeim fjármagn heyra undir viðmið um sniðgöngu. Það sama á við um ísraelskar menntastofnanir sem eru ríkisstyrktar, þar á meðal opinbera aðila, sjálfstæðar stofnanir og þrýstihópa. Þetta á líka við um áróðursherferðir/almannatengslafyrirtæki á borð við Brand Israel, sem og allar ísraelskar eða ó-ísraelskar (þ.e. alþjóðlegar) menningarafurðir sem fjármagnaðar eru af opinberum aðilum eða samtökum í Ísrael (s.s. Out in Israel hátíðina í San Francisco). 

Það er engin „rétt“ aðferð til að tryggja að fjármögnun sé í lagi en hafa má sem grunnviðmið að samtök séu í samræðu við samstarfsaðila sína um uppruna allra tekna. Ein aðferð til þess að komast hjá samstarfi við opinbera aðila í Ísrael er að bæta yfirlýsingu um stuðning við PACBI við alla samstarfssamninga eða þátttökusamninga listamanna svo skuldbindingin fari ekki á milli mála. 

Þótt þar komi ekkert fram um fjármögnun þeirra er Index Palestine gagnleg heimild um afstöðu ýmissa ó-ísraelskra samtaka gagnvart frelsishreyfingu Palestínumanna. 

Við hvaða aðstæður myndi PACBI afturkalla boð um sniðgöngu Ísraels?

Sniðgöngunni lýkur þegar bundinn hefur verið endi á aðskilnaðarstefnu Ísraels og nýlendustefnu landnámsins og Palestínumenn fá notið sjálfsagðra og alþjóðlega viðurkenndra réttinda sinna, að meðtöldum réttindum til frelsis, réttlætis, jafnréttis og óafsalanlegum rétti palestínskra flóttamanna til þess að snúa aftur til lands forfeðra sinna þaðan sem þeir hafa verið gerðir brottrækir á grundvelli þjóðernis svo áratugum skiptir.